Hugleiðingar Erlu

Hugleiðing

Rennum vitundinni inn í efsta orkublóm okkar, í kórónuna og finnum styrk og hreinleika breiða sig yfir tilfinningarnar.

Leiðum síðan vitundina inn í ennisstöðina, finnum víðáttu og frelsistilfinningu breiða sig yfir allan tilfinningalíkamann.

Leiðum síðan vitundina inn í hálsstöðina og finnum lífið streyma fram og umbreyta tilfinningunum í jafnvægi og gleði.

Leiðum síðan vitundina inn í blóm kærleikans og finnum elskuna breiða sig yfir tilfinningarnar og breyta þeim tónum sem enn eru sárir í frið og hamingju.

Finnum einingu milli efnis og tilfinningalíkamans. Notum hugann og finnum bát hugans renna sér hljóðlega inn á lygn lón sálarinnar.

Hlustið, finnið og horfið

Erlan

Hugleiðing

Ég tala til þín – til ykkar allra
Ég vil biðja þig að líta inn á við,
finna – sjá og hlusta.
Finnið ljós Guðs lýsa innra með ykkur.

Nálgast þú ljósið varlega,
skoðaðu tilfinningarnar,
finndu hvernig ljós Guðs og ljós þitt sameinast
og vermir allan til tilfinningalíkama,
njóttu þess stutta stund.

Leyfðu nú ljósinu að kyrra hinn ólgandi fák hugans,
finndu hvernig ljósið gerir hug þinn tæran og stilltan.

Finndu síðan hvernig ljós þitt og ljós Guðs sameinast
og rennir sér eins og ljúfur bátur inn á lygn vötn sálarinnar.

Njóttu þess stutta stund.

Sendum síðan til allra samferðarmanna okkar
og til allra heima jarðarinnar, bæn um frið.
Sendum í huga okkar neista úr Sól sólarinnar til vina og ættingja,
til alls mannkyns í hvaða vídd er þeir búa,
geisla úr hinum mikla eldi alheimslogans.

Köllum til okkar engil friðar og kærleiksengla himins
og biðjum í nafni Meistara okkar um frið og blessun til okkar
- til móður jarðar og allrar náttúrunnar.

Megi svo verða
í Guðs friði

Erla Stefánsdóttir

Golden light

 

Kæru vinir

Heilagur Ágústínus segir svo: ,,Drottinn, ég var eins og villuráfandi sauður, ég leitaði áhyggjusamlega að þér ytra en þú bjóst við mér hið innra. Ég gekk um stræti og torg og í borgum þessa heims og leitaði þín. Ég fann þig ekki, því ég leitaði hið ytra að honum, sem bjó innra með mér sjálfum“.

Lifum-finnum-hlustum-sjáum hinn mikla fögnuð er streymir innra með okkur. Nálgist í þögn hæðir ykkar eigin raunveruleika. Opnið vitundina fyrir samhljómi frá Guði. Munið að Hann býr innra með ykkur, neisti úr hinum Guðlega eldi er fylgir okkur á braut lífsgöngunnar.

Góða ferð.

Erlan


Sýning

Kæru Lífssýnarfélagar og vinir.

Þann 23.03.2013, laugardag fyrir Pálmasunnudag verður sýning á ýmsum þeim myndum sem ég hef skynjað og teiknað. Verður hún haldin í Hafnarborg í Hafnarfirði. Opnað verður kl. 15:00. Ef þið eigið myndir eftir mig og viljið lána, má hafa samband við mig í síma 552-1189 eða 896-9689.

Ég kem til með að sýna m.a. kortin af Ísafirði, Hafnarfirði og andlega trimmkortið af Elliðaárdalnum, svo sýni ég kortið af Akureyri og bændagistingakort úr Borgarfirði og Kjósinni.

Einnig verða til sýnis og sölu meistaramyndirnar úr bókinni „Lífssýn mín“ í plakatformi.

Væri ekki gaman að finna sína gömlu árumynd á sýningunni?

Verið velkomin kæru vinir.
Erla.

Hugleiðing – jólin

Kæri vinur,

Renndu vitundinni um jarðlíkamann,
lokaðu augunum og horfðu inn á við, sem út á við,
hlustaðu og finndu fyrir veru þinni, ljósinu hið innra.

Finndu fyrir orkulíkama þínum,
finndu litaskalann í sömu litum og regnbogann.
Finndu streymið, birtuna og tærleikann.

Hlustaðu og finndu fyrir ljósfjólurauðum ilmi hátíðarinnar sem í vændum er.
Finndu stemninguna leggjast yfir þig,
finndu fyrir barninu í þér, finndu gleðina og eftirvæntinguna,
hlustaðu og horfðu.

Lyftu vitund þinni og horfðu inn í þitt innsta ljós,
ekki ljós persónunnar, heldur sálarinnar.

Finndu helgina og friðinn,
ekki hugsa um hvað þú átt eftir að gera fyrir hátíðina,
Helgin er innra með þér, njóttu hennar.

Haltu áfram með hugleiðinguna,
lyftu vitund þinni þannig að þér finnst þú fljúga mót himni.
Þá getur þú heyrt hinn mikla alheimsgeim tala til þín á sínu óendanlegu dýrðarmáli sínu.
Horfðu innar og dýpra,  þú gætir séð svífandi englaverur,
tindrandi bjartar, frá þeim stafar gleði og litadýrð.
Þeir strá yfir þig kærleiksgeislum er þeir breyta í sindur.
Viltu vera með og njóta stundarinnar?

Englaverurnar minna okkur á þann tíma sem í vændum er, þegar ljós heimsins fæðist,
hvort sem við hugsum um trúna eða himingeiminn.
Þessi hugsun nærir hugskot okkar og við dveljum viða þessa kyndla nokkur augnablik .

Megi alfaðir blessa ykkur, sem lesið þetta.